ísland fyrir íslendingar

Ísland fyrir Íslendinga – hverjir eru Íslendingar?

Sá sem heldur því fram að Ísland sé fyrir Íslendinga verður að geta svarað því til hver sé Íslendingur! Er hann sá sem talar íslensku? Ef við svörum því játandi, þá hvað með börnin sem fæðast í útlöndum en eiga íslenska foreldra, og hafa ekki lært málið? Er Íslendingur sá sem fæðist á Íslandi? Fjöldi barna fæðast hér á landi sem eiga útlenska foreldra. Flokkast barnið þá sem Íslendingur? Er Íslendingur sá sem er með íslenskan ríkisborgararétt? Fjöldi fólks af erlendum uppruna er með íslenskan ríkisborgararétt, þar á meðal ég. Er ég þá Íslendingur? Hvenær hættir útlendingur að vera útlendingur? Er það fyrsta kynslóð, önnur eða þriðja kynslóð innflytjenda? Hvað ætli margir Íslendingar eigi ættir að rekja til Danmerkur eða Noregs? Hver er Adam Íslands?

Mér þykir það sorglegt að við séum að eyða orku í skilgreininguna hver sé Íslendingur og hver sé útlendingur í stað þess að einbeita okkur því hvernig við getum byggt upp Ísland saman. Við búum saman og því er það sameiginlegt verkefni okkar að byggja brú á milli okkar sem hér búum. Ég er þess fullviss að flestir þeir sem hræðast útlendinga eiga ekki í neinum samskiptum við þá en staðreyndin er sú að við hræðumst það sem við þekkjum ekki. Væri ekki betra að við myndum kynnast hvort öðru með opnum huga og sjá til hvernig gengur?

Hvað myndi gerast ef allir útlendingar sneru aftur til síns heima? Hver ætti að fylla öll störfin sem þeir vinna? Atvinnuleysi á Íslandi er minna en 0.07% sem þýðir að það er vinna fyrir alla þá sem vilja vinna! Það er talað um útlendinga sem afbrotamenn og margir hræðast þá. En ég spyr: Eru allir Íslendingar dæmdir þegar við heyrum af handtöku Íslendings í Brasilíu vegna eiturlyfjasmygls? Eru þá allir Íslendingar eiturlyfjasmyglarar? Það er margir útlendingar á Íslandi sem líta á Ísland sem sitt land. Þeir tilheyra íslensku samfélagi og eru virkir í samfélaginu. Hvað á að segja um þá? Ekki reyna! Þið eruð útlendingar!! Og hvað með börn erlendra foreldra sem fæðast á Íslandi og alast upp sem Íslendingar? Eigum við að segja við þau: Nei, þið eruð útlendingar!

Það var tekið við mig blaðaviðtal í desember um jólahald en ég held upp á jólin eins og flestir hér á landi. Samt er ég múslimi! Ég svaraði því til af hverju ég þurfi að skilgreina mig eins og kona frá Palestínu eða kona frá Íslandi þegar ég get verið bæði. Er ekki skemmtilegra að horfa á hvort annað eins og við erum, í stað þess að horfa sífellt á það hvaðan við komum? Við erum fyrst og fremst manneskjur og það eru til góðar og slæmar manneskjur í öllum samfélögum – líka á Íslandi!



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Vala Elísdóttir

Ég tek undir hvert einasta orð.  Ég er nú þannig þenkjandi að mér finnst jörðin vera fyrir alla, og skiptir þá ekki máli hvar á jarðarkringlunni.  Ísland fyrir alla og ég tek þátt í því....

Guðrún Vala Elísdóttir, 10.2.2008 kl. 19:49

2 Smámynd: Guðrún Vala Elísdóttir

Nei Þór, við höfum nefnilega ekki lifað hér í 1000 ár án astoðar annarra þjóða.... það er svo einfalt.

Guðrún Vala Elísdóttir, 13.2.2008 kl. 22:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband